apríl 28, 2003 :::
Ráðgjafi í raforkumálum
Föstudagur 25 april 2003.
Hér gengur allt sinn vanagang. Hef verið á flakki med Svíum og Finnum að skipuleggja rafvæðingu hér í Kabúl. Það snýst að mestu um að endurnýja spennistöðvar og línur sem voru eyðilagðar í stríðinu. Flutninsspennan er 110 kV, dreifispennan 15 kV (á að hækka í 20 kV í framtíðinni) og notendaspennan er 400/230 V. Svo virðist sem Austur-Þjóðverjar hafi hannað og aðstoðað við uppbyggingu raforkukerfisins fyrir stríð. Áætluð notkun pr. fjölskyldu er 1 kW, hugsað fyrir lýsingu og sjónvarp. Nóg rafmagn er til næstu 5 mánuði vegna þess að virkjanir ganga vel í þeirri rigningartíð sem verið hefur undanfarið.
Heimsótti ráðuneyti vatns og orkumála.Hitti þar yfirverkfræðing raforkumála í Afganistan. Fróður maður, talaði góða ensku og vissi nákvæmlega um hvað málið snýst. Gaman að hitta hér kollega sinn. Þær þjóðir sem sinna uppbyggingarstarfi hér virðast ætla að nota mig sem ráðgjafa í raforkumálum, enda er ég eini raforkukallinn hér á svæðinu eftir því sem ég best veit. Það er ágætt, þá ferðast ég meira heldur en ég gerði ef ég sinnti einungis verkefnum fyrir Þjóðverjana.
Magnús H. Gíslason
::: posted by Salvör at 3:45 f.h.
apríl 23, 2003 :::
Heimsókn í háskólann í Kabúl
Fimmtudagur 17 apríl 2003.
Hef undanfarið verið önnum kafinn við að hanna rafkerfi í tvær lögreglustöðvar. Fór í fyrradag í heimsókn í Háskólann í Kabúl með nokkrum Svúum, til að athuga hvers vegna uzbekískur spennir sem þar hafði verið settur upp fyrir heimavistina virkaði ekki. Í ljós kom að það átti eftir að tengja hann, setja upp rofaskápa og fleira. Eitthvað sambandsleysi á milli ráðuneyta, eitt ráðuneyti átti að setja spenninn upp, en annað að tengja hann.
Í háskólanum eru um 13000 nemendur og um daginn, í upphafi skólaársins þurfti að vísa um 5000 nemendum frá vegna plássleysis. Það olli nokkrum óróa meðal almennings. Við skoðuðum heimavistina í fylgd vinalegs pilts, sem var að læra tölvuensku “Computer English”. Á vistinni búa um 2700 nemendur, í húsi sem þætti trúlega hæfilegt fyrir nokkur hundruð manns heima á Íslandi. Drengurinn sýndi okkur upphaflega mötuneytið. Eldhúsið hafði verið nýtískulegt fyrir um 30 árum, búið venjulegum rafmagnstækjum. En í stríðinu var allt hreinsað burt úr rafmagnstöflunni og öllum rafmagnsvírum stolið sömuleiðis.
Gömul tækni og nýtísku hlóðaeldhús
Málið leystu Afganir eins og svo oft, með því að hverfa aftur til fortíðar. Þeir reistu hlóðaeldhús á skólalóðinni og bera þaðan matinn upp í mötuneytið. Sérstakt að sjá kartöflur eldaðar fyrir 2700 manns í einu á hlóðum. Í húsi við hliðina höfðu Þjóðverjar byggt nýtt eldhús, nýtísku hlóðaeldhús. Tíu hlóðir í röð, hver með um 100 lítra potti á. Það nytískulega var að hlóðunum var þjónað utanfrá, þar var timbrinu mokað inn og öskunni mokað út. Einnig var reykmengun tiltölulega lítil innandyra, ólíkt því sem var í gamla hlóðaeldhúsinu. Ja, það má nú lengi bæta gamla tækni.
Heimsókn í unglingaskóla fyrir stúlkur
Í gær fórum við í heimsókn í unglingaskóla fyrir stúlkur, sem til stendur af endurbæta. Stúlkurnar voru allar í svörtum kjólum með hvíta slæðu. Þær voru frekar forvitnar, en mjög hlédrægar miðað við strákana á þeirra aldri. Aðeins máttu tveir okkar fara með túlkinum inn í einu af siðferðisástæðum. Afganir eru nefnilega mjög viðkvæmir fyrir því að sýna konur ókunnugum, sérstaklega í skólum. Háir veggir voru í kringum skólalóðina og skólahliðið hulið dúk, til þess að vegfarendur væru ekki að gægjast inn á skólalóðina. Myndatökur að sjálfsögðu alls ekki við hæfi. Yfirleitt er konum illa við myndavélar og stúlkum kennt að forðast myndatökur. Drengir og ungir menn eru hins vegar vitlausir í að láta mynda sig.
Rafmagnsheimtaugin í skólann hafði einhvern tímann verið skemmd og enginn til staðar sem gat gert við. Almenn verkkunnátta hvarf með öllum þeim sem flýðu land í stríðinu sl. aldarfjórðung. Menn höfdu þó reynt að bjarga sér með smávegis lýsingu fyrir skólann. Útbúin hafði verið um 200 metra heimtaug úr ýmsu rusli, venjulegum ídráttarvír, köplum og lampasnúrum. Á samskeytum var vírunum snúið saman eftir bestu getu og pokaplast stundum bundið utanum til einangrunar. Hvorki sáust tengi né einangrunarband. Þetta var ýmist hengt upp í tré eða hent ofan í opna skolprennu og endaði einhver staðar í heimahúsi.
Já, það er af nógu að taka í uppbyggingarstarfi hér í Afganistan.
Magnus H. Gíslason
::: posted by Salvör at 9:26 f.h.
apríl 22, 2003 :::
Stríðsmenn guðs halda páskamessu
Mánudagur 21 apríl 2003.
Þá eru páskarnir liðnir. Ekkert frí tekið, unnið alla helgidagana. Á föstudaginn kom hinn Íslendingurinn hér í Afganistan í heimsókn, Ríkharður hjá Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum. Hann er að vinna nálægt Masar-E-Sharif í norðurhluta landsins við skólabyggingu í þorpi þar. Ekki er það starf áhættulaust, fyrir skömmu var einn af bílum þeirra stoðvaður og Evrópumaður tekinn af lífi. Hinir látnir í friði.
Á laugardagskvöld var brenna og gleðskapur hér, "Eusterfeuer". Á páskadag fór ég í þýska messu í kirkjutjaldinu hér. Um athöfnina sáu tveir prestar í fullum herklæðum, annar katólskur, hinn lúterskur. "Soldiers of God " datt mér í hug og rifjaði upp sögu kristninnar.
Plagsiður heimamanna: eldflaugaárásir
Að loknu stríðinu í Írak, velta menn fyrir sér framhaldinu þar. Danirnir telja að þeim verði falið stórt hlutverk þar, enda tóku þeir þátt í stríðinu með tveimur herskipum á Persaflóa. Þeir áforma að senda þangað 800 manna lið þegar þar að kemur. Þjóðverjar ætla sér einnig þangað og Rússar eru ekki ólíklegir þátttakendur í uppbyggingarstarfinu. Óvinurinn hefur ekki skotið eldflaugum í nokkurn tíma, vonandi tekur fyrir þennan plagsið heimamanna. Þó hafa borist spurnir af sendingu sem þeir ætla okkur; "Mother of all Rockets" sbr. "Mother of all Battles" hjá Saddam og "Mother of all Bombs" hjá Bush. Ja, ja menn grínast með þetta, en vissulega er ákveðin hætta til staðar.
Nytsöm landbúnaðarvél í Afganistan: Jarðsprengjutætari
Jarðsprengjur eru verulegt vandamál, þeim var dreift svo vía í stríðinu. Meira að segja innan Kabul er okkur kennt að gera eins og heimamenn, fara aðeins troðnar slóðir. Mest er hætta fyrir börnin, þau eru svo forvitin af eðlisfari og kunna ekki að forðast hættur. Það verður alltof oft þeirra bani. Reyndar voru Þjóðverjarnir að taka í notkun vél til að hreinsa jardsprengjusvæði s.k. "Minebreaker" Hún hreinsar um einn hektara á dag við góðar aðstæður.
Rigningargalsi
Um páskana kólnaði skyndilega í veðri og það snjóaði í I fjöllin hérna í kring. Einnig rigndi töluvert, sennilega hafa Norðurevrópubúarnir komið með rigninguna hingað. Afganirnir eru mjög ánægðir, enda hefur vart komið dropi úr lofti síðustu sjö ár. Í rigningunni grípur þá einhver galsi,svipað og gerist á Íslandi á sólrikum sumardegi. Þeir vilja nefnilega meiri rigningu og minni sól, öfugt við okkur heima.
Magnus H. Gislason
::: posted by Salvör at 6:43 f.h.
apríl 14, 2003 :::
Herganga - nýr einkennisbúningur
Mánudagur 14 apríl 2003.
Sl. föstudag var herganga (march), skipulögð af frændum vorum Dönum. 25 km í fullum skrúða, með 15 kg á bakinu + vatn. Hiti 20-30 stig, sól og logn. Var 4 klst. Vatnsþörf er mikil á svona göngu, amk. 1 litri pr. klst.
Fékk danska orðu í verðlaun.
Af einhverjum ástæðum fékk ég bréf með atvinnuumsókn frá einum Afgana, sem var að vinna sem undirverktaki hér á kampinum. Umsóknin var á ensku og það kom í ljós að umsækjandinn lagði sérstaka áherslu á að hann hefði fyrir tveimur fjölskyldum að sjá, enda með tvær konur. Já, fjölkvæni er enn við lýði hér í Afganistan.
Í gær fengum við nýjan einkennisbúning. Hann er hannaður fyrir sumarveður hér, úr léttara efni en vetrarbúningurinn, eins konar safari klæðnadur. Klæðnaðurinn er ljósbrún föt og hattur, drapplituð og ljósir skór. Vetrarbúningurinn var dökkgræn föt og svartir skór. Skóna þurfti alltaf að þrífa, vegna þess að leirinn hér er ljós á litinn og sést vel á svörtum skóm. Nýju skórnir eru þægilegri í meðförum.
Hitinn fer hækkandi með hverjum deginum sem líður, kominn yfir 30 gráður um miðjan daginn. Kvöldin eru hins vegar mjög notaleg og gott að sitja úti undir stjörnubjörtum himni. Ljósmengun er hér lítil og því sjást stjörnurnar mjög vel. Yfirleitt er heiðskírt, enda regntíminn búinn. Sennilega kemur ekki dropi úr lofti fyrr en í haust.
Magnús H. Gíslason
::: posted by Salvör at 3:26 f.h.
apríl 09, 2003 :::
Ekki vinnufriður fyrir eldflaugaárásum
Miðvikudagur 9 april 2003.
Hér er ekki vinnufriður fyrir eldflaugaárásum. Í gærkvöldi lenti eldflaug um 500 metra frá kampinum; óvininum fer greinilega fram, síðasta flaug lenti í um 1000 metra fjarlægð. Þetta þýddi 4 klst. setu á hörðum bekkjum úti í byrgi. Um nóttina vaknaði ég svo við að allt lék á reiðiskjálfi. Það var sennilega jarðskjálfti því að loftvarnaflauturnar voru ekki settar í gang. Sofnaði strax aftur, enda ekki alvarleg hætta á ferðum.
Vígvélagrafreitir
Fór í gær á æfingu með Þjóðverjunum á æfingasvæði stutt frá kampnum. Stóð mig bara nokkuð vel að þeirra mati. Á leiðinni ökum við framhjá byggingum Talibana sem Bandaríkjamenn höfðu sprengt allhressilega í tætlur. Sömuleiðis ökum við um svæði með þúsundum ónýtra skriddreka og hertóla ættuðum frá Sovetríkjunum. Já þau eru víðáttumikil flæmin hér sem minna á aldarfjórðungs stríð; grafreitir fallinna og geymslusvæði ónýtra vígvéla. Sumir segja að ástandið minni á Þýskaland eftir heimsstyrjaldirnar tvær.
Þrísetnir skólar
Í fyrradag heimsóttum við barnaskóla sem Þjóðverjar hafa endurbyggt að hluta. Hann var byggður á Sovettímanum og þjónar blokkahverfi, byggdu á sama tíma. En Rússarnir hafa greinilega vanmetið íbúa- og barnafjöldann í hverfinu. Skólinn virtist mér vera um 2000 fermetrar, ásamt 400 fermetra viðbyggðu íþróttahúsi. Sjálfsagt svipaður að stærð og Laugarnesskóli í Reykjavik. Einsetning var skólastjórnendum framandi. Skólinn er þrísetinn, nemendur átta þúsund! Það var ótrúlegt að koma þarna inn. Kennt alls staðar, á göngum, anddyri og í íþróttahúsinu. Á skólalóðinni voru kennslutjöld frá UNICEF. (Minnti nú reyndar svolítið á kennslugámana við Laugarnesskóla). Hávaðinn í krökkunum var óskaplegur, ekki síst þegar svo framandi gestir komu í heimsókn. Þegar við komum voru aðeins strákar í skólanum, enda kynskipting skóla við lýði í Afganistan. Í anddyrinu var kennslukona að kenna strákunum að leggja saman tölur á gamalli svartri krítartöflu. Í stað kennslupriks var hún með trjágrein í hendi og beitti henni óspart til af halda aga í bekknum. Af og til heyrðust háir smellir þegar greinin skall á borðum nemendanna Ekki kæmi á óvart þó að greinin lenti stundum á hendi eða haus. Sjálfsagt munar strákana ekkert um smá skrámur, ótrúlega mikið er um ör á þessum litlu höndum og hausum; sést vel því flestir eru snoðaðir.
Á skólalóðinni hafði verið settur upp brunnur með handdælu til að útvega drykkjarvatn fyrir skólann. Það sem við vorum að gera var að semja við verktaka um að leggja pípu frá brunninum að snyrtingunni fyrir skólann. Hún var nú ekki beysin, aðeins tvo lítil herbergi. Tilgangurinn er að fá rennandi vatn í gamlan vask á snyrtingunni, svo að nemendurnir geti þvegið sér um hendurnar. Um vatnssalerni er ekki að ræða meðal innfæddra hér í Afganistan.
Magnús H. Gíslason
::: posted by Salvör at 7:53 f.h.
apríl 07, 2003 :::
Norðurbandalagið vill ekki mæta á fundi..
Laugardagur 5 april 2003.
Allt er hér með kyrrum kjörum, sagt er þó að liðsmenn Norðurbandalagsins vilji ekki mæta á fundi hér á kampinum, telji það of áhættusamt eftir eldflaugaárásina um daginn. Sl. fimmtudagskvöld hélt einn Þjóðverjinn í sveitinni upp á afmælið sitt með pompi og prakt. Dagurinn á eftir var frídagur, eins og aðrir föstudagar. "Thank God it is Friday" og "Another Day in Paradise" heyrir maður stundum í Þjóðverjunum þegar þeir eru að nöldra yfir vistinni hér. Hvar væru þeir staddir ef þeir hefðu ekki bjórinn sinn, t.d. þennan bæverska hveitibjór; heisse weissbier? Á flestum kaffihúsunum eru það strákar sem afgreiða veitingar, nema hjá Rauða krossinum, þar voru um daginn thrjár stúlkur að afgreiða, þær Frauke, Pitze og Bosma. Nöfn allra standa skýrum stöfum utan á einkennisbúningunum. Gaman að sjá skrýtin nöfn, sem gengju sennilega ekki ef viðkomandi flyttust til Íslands.
Er annars mest í því að skoða hús sem til stendur að gera upp. Það kemur í minn hlut að sjá um endurnýjun rafkerfis.
Magnus H. Gislason
::: posted by Salvör at 12:41 f.h.
apríl 01, 2003 :::
Óvinir okkar voru með leiðindi...
þriðjudagur 1 apríl 2003.
Óvinir okkar voru með leiðindi í aðfaranótt sunnudags, skutu eldflaug á kampinn. Flaugin lenti sem betur fer um 1 km frá markinu. Þetta var 160 mm sver flaug með um 6 kg sprengihleðslu. Ekki sérstaklega öflug sending, sennilega kínversk framleidsla, en fremur óþægileg. Allir á fætur og út í byrgin. Þurftum að vera þar í um tvo tíma. Veiki punkturinn hér á kampinum eru loftvarnir. Gagnflaugar duga ekki þegar skotið er af svo stuttu færi. Vitað er hins vegar hvaðan skotið var og fara menn sjálfsagt í heimsókn þangað til að reyna að finna skotbúnaðinn.
Þegar við ökum nú um Kabúl er allt fullt af börnum á götunum. Mest ber á litlum stúlkum sem eru að fara í eða úr skóla. Þær eru allar klæddar eins, í svartan kufl og með hvíta slæðu, mjög sætar. Þær eru flestar með bakpoka fyrir skóladótið, sjálfsagt gjöf frá hjálparstofnunum. Ótrúlegt hvað þeim tekst að halda sér hreinum þrátt fyrir alla leirdrulluna. Skólarnir eru kynskiptir. Með hjálp alþjóðastofnana er reynt að bæta stúlkum upp menntunarbannið frá dögum Talibanastjórnarinnar. Sömuleiðis er í gangi átaksverkefni til að bæta menntun kennslukvenna í Afganistan.
Póstsendingar taka sinn tíma hér, en allur póstur til hermanna utan Þýskalands flokkast sem „Feldpost“. Það þýðir að póstur getur verið 2 til 4 vikur að berast, en verðið er það sama og innan Þýskalands. Alltaf er jafn hjartnæmt þegar þýsku drengirnir fá sendingu að heiman, bréf frá ástvinum, eða kannski pakka með þýskum pylsum frá mömmu. Yfirleitt taka þeir sendingarnar með sér til vistarvera sinna, þegar þeim er dreift í lok vinnudags, og opna þær í einrúmi. Flestir sakna sinna heimkynna og telja dagana þangað til þeir komast heim. Þeir eldri eru betur sjóaðir í svona úthöldum og vissu hvers konar umhverfi biði þeirra hér í Afganistan.
Ég er núna að lesa bókina „Der Reibert: Das Handbuch fur den deutschen Soldaten. Heer, Marine, Luftwaffe“. Þetta er handbók upp á um 800 síður, með alls konar fróðleik, t.d. um tignargráður, meðferð búnaðar og vopna, hegðun ofl. ofl. Hin besta lesning.
Mikið er lagt upp úr hreinlæti hermanna. Að sjálfsögðu á að fara í sturtu og skipta um nærföt og sokka á hverjum degi, halda nöglum hreinum og klippa hár stutt. Þvo sér um hendur áður en borðað er. Í þeim tilgangi eru vatnskranar og brúsar með sótthreinsiefnum við innganginn í mötuneytið. Þar er skylduþvottur.
Hreinlæti er einnig nauðsynlegt vegna þess mengada ryks sem liggur oft yfir Kabúl og einnig vegna allra þeirra afgönsku starfsmanna sem vinna hér, en þeir bera stundum sjúkdóma eins og t.d. berkla inn á kampinn. Þá sjúkdóma er þó auðvelt að meðhöndla. Heilsufar er þó almennt gott, t.d. hefur enginn orðið veikur í 23 manna þýsku sveitinni sem ég er í, þann tíma sem ég hef verið hér. Fólk er reyndar ekki sent hingað nema heilsan sé í lagi. Þetta veldur vissum verkefnaskorti hjá heilsugæslunni hér, en hún er góð. Málið er að heilsugæslufólk þarf að vera í þjálfun, ef eitthvað alvarlegt kemur upp á og viðbúnaður gegn stóráföllum er ekki virkur, ef engir hafa verið sjúklingarnir í langan tíma. Reynt er þó að leysa þetta með því af sinna afgönskum sjúklingum.
Fór í gær með nokkrum félögum að versla, en þeir fara heim bráðlega. Einn keypti gullfestar, annar teketil sérstakan, svokallaðan “Samovar” Ekki eru þessar verslanir að offjárfesta í húsnæði, enda verð hagstætt hér miðað við Vesturlönd.
Ekki hef ég frétt neitt af BinLaden, það eina sem ég hef heyrt er “Teilladen”, “Fertigladen“ og „Entladen“. Þetta eru orð sem tengjast skotvopnum.
Magnus H. Gislason.
::: posted by Salvör at 2:52 f.h.