Myndir
Myndir 1
Myndir 2
Myndir 3
Manudir
mars 2003
april 2003
mai 2003
juni 2003
juli 2003
agust 2003
september 2003

Afganistan


Heim Eldra efni Hafa samband

mars 30, 2003 :::
 
Flugskeytaárás
Rocket Hits Peacekeepers HQ in Kabul
Ekkert er komið um þessa árás á ISAF KabulÍ www.mbl.is er þessi frétt:
Erlent | AFP | 30.3.2003 | 19:22
Flugskeytaárás á búðir friðargæsluliða í Kabúl
Flugskeytaárás var gerð á bækistöðvar alþjóðlega friðargæsluliðsins í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í kvöld. Sagði Harouun Azzefi, ríkislögreglustjóri Afganistans, að tveimur flugskeytum hefði verið skotið á búðirnar sem eru í nágrenni við sendiráð Bandaríkjanna og forsetahöllina. Enginn mun hafa látið lífið í árásinni.

ABC segir:
— KABUL (Reuters) - A rocket slammed into the headquarters of U.N. peacekeeping force in Kabul on Sunday, U.N. officials in the Afghan capital said.
There were no immediate reports of injuries in the attack on the compound of the International Security Assistance Force (ISAF) situated near the U.S. embassy, they said.


::: posted by Salvör at 1:07 e.h.


mars 28, 2003 :::
 
Kappganga, lauksúpa, mújaheddinar í endurhæfingu

Föstudagur 28 mars 2003.

Í dag er frídagur. Danir standa fyrir 25 km kappgöngu í dag og veita orðu þeim sem taka þátt. Ekki leist mér á það, allt á kafi í drullu hér á kampinum vegna rigninga undanfarið. Í fyrradag heimsóttum við bókasafnið í Kabúl vegna áforma um endurbyggingu. Fremur var það nú smátt á íslenskan mælikvarða og ekki allar hillur fullar eftir tiltekt á vegum Talabana. Á efstu hæðinni var þessi svakalega lauklykt. Þegar við komum inn í einn salinn, var þar kona að sjóða súpu á hellu innan um bækurnar. Eins og yfirleitt í þessum gömlu byggingum var rafkerfið í rúst og það þarf að endurhanna það og endurnýja. Síðan var farið í félagsmiðstöð fyrir unglinga sem Þjóðverjar eru að reisa. Þeir sem sjá um framkvæmdirnar eru gamlir stríðsmenn Mujaheddin í endurhæfingu. Hún virðist skila árangri, þeir eru ekki að berjast á meðan.

Í gær fórum við í innanríkisráðuneytið á fund með verkfræðingi. Hann kom með teikningar sem hann hafði unnið vegna endurbyggingar lögreglustöðvar. Heimsóttum síðan bæjarskrifstofu í einu hverfi Kabúl og ræddum málin. Oft þarf á slíkum fundum að spjalla svolítið yfir tebolla og smákökum áður alvöru málin eru rædd. Loks var litið við í leikskóla sem er í byggingu. Mikil áhersla er lögð á að fara varlega vegna stríðsins í Írak.

Magnús Gíslason

::: posted by Salvör at 3:08 f.h.


mars 25, 2003 :::
 
Vorverk á ökrunum, súrefnisverksmiðja

Þriðjudagur 25 mars 2003.
Útgöngubanninu hefur sem betur fer verið létt hér á kampinum. Fór á sunnudaginn med afgonskum verkfræðingi til að skoða staðhætti í lögreglustöð sem við ætlum að endurbyggja. Í gær fórum við í Ieikskolann, en hann fer að verða tilbúinn, verið er að mála og ganga frá. Skólastýran og aðstoðarkona hennar voru mjög spenntar. Þessi skóli er ætlaður fyrir um 30 börn, en sjálfsagt verða þau helmingi fleiri. Gott mál. Í morgun förum við svo í súrefnisverksmiðju, ásamt þýskum efnafræðingi og apótekara.

Rússar höfðu reist þessa verksmiðju á sínum tíma til að framleiða súrefni sem þeir notuðu til að rafsjóða með. Hreinleikinn er um 70%. Vandamálið er að afgönsku sjúkrahúsin eru að nota þetta súrefni, en til slíkra nota þyrfti það að vera 99% hreint. Við reyndum að finna leiðir til að bæta framleiðsluna, ein af tillögum heimamanna var að setja upp 100kW rafstöð til að tryggja stöðugt rafmagn. Ég held reyndar að vandamálið sé hinar 35 ára gömlu rússnesku vélasamstæður, þær eru ekki hannaðar til að framleiða súrefni fyrir sjúkrahús.

Nú eru heimamenn farnir að vinna á ökrunum við vorverkin. Grasið er farið að grænka og kirsuberjatrén farin að blómstra. Fólk nostrar við vínviðinn, en hér eru berin borðuð fersk, ekki er búið til úr þeim vín. Töluvert hefur rignt upp á síðkastið, og eru Afganirnir að endurbyggja áveitukerfi sín til að veita vatninu um ræktunarlandið.

Almennt eru Afganirnir afskaplega vinveitt fólk og þreytt á stríðinu síðastliðin 25 ár. Þó ber ennþá á strangtrúarmönnum sem vilja alla útlendinga burt og upptöku talibanskra stjórnarhátta. Það er sorglegt þegar okkur berast hótanir um skemmdarverk á stúlknaskóla sem við erum að byggja hér í Kabul. Væntanlega verður þessum hótunum ekki framfylgt á meðan við erum hér á staðnum, en guð hjálpi stúlkum hér í Kabul ef við færum burt. Það er umhugsunarefni hvað vestrænar þjóðir eiga að ganga langt í að vernda mannréttindi með hervaldi, en ég tel því miður að það sé eina lausnin sem dugir í þessu landi. Því miður duga ekki á Talibanana bréfaskriftir eða mótmælagöngur á Vesturlöndum. Um 30 þjóðir, flestar úr Evrópu taka þátt í þessu verkefni með samþykki Sameinuðu þjóðanna, margar nýfrjálsar, svo sem baltnesku löndin, ríki fyrrum Júgóslóvaliu, svo og gömlu Austantjaldsríkin. Meira að segja taka Nýsjálendingar þátt.Tveir eru frá Sviss og einn frá Íslandi. Samvinna þessara þjóða hér í Austurvegi minnkar örugglega líkur á átökum þeirra á milli heimafyrir í framtíðinni.
Magnus Gislason


::: posted by Salvör at 5:18 f.h.


mars 21, 2003 :::
 
Hlóðaeldhús, nýársdagur, setuliðsvinna, kvennakúgun

Föstudagur 21 mars 2003.

Í fyrradag heimsóttum við innanríkisráðuneytið í Kabúl. Þar var mættur afganskur verkfræðingur til skrafs og ráðagerða varðandi endurbyggingu lögreglustöðvar. Við skoðuðum síðan þjónustubyggingu við lögreglustöðina. Eins og fyrri daginn vilja Afganirnir hafa áfram sitt hlóðaeldhús. Aðskildir matsalir eiga að vera, annars vegar fyrir yfirmenn og hinsvegar fyrir hermenn. Trúlega arfur frá nýlendutíma Breta. Heimsóttum síðan leikskóla sem við erum að endurbyggja. Þar voru nokkrir drengir að vinna, voru búnir að setja upp hlóðir úti í garði. Á þeim var tjörupottur og að sjálfsögðu teketillinn. Ræddum við leikskólastýruna með aðstoð túlksins. Henni fannst verkið ganga alltof hægt, en nú er nýtt skólaár hér að hefjast. Reyndar er nýársdagur í dag og þriggja daga hátíðahöld í tilefni þess. Þetta mun vera samkvæmt gömlu Persnesku tímatali sem virðist taka mið af vorverkunum í landbúnaði. Fólk þrífur húsin sín, heimsækir ættingja, plantar trjám og heldur gripasýningar og keppir í hestaíþróttum. Eftir um 5 daga hefst opinberlega vorið hér í Afganistan. Skreytilist Afgana fær einkennilega útrás í vörubílum heimamanna. Þeir eru ótrúlega flott skreyttir, sumir hrein listaverk. Reyndar var Kabul mjög falleg og skreytt borg áður en stríðið hófst fyrir tæpum aldarfjórðungi síðan.

Trjásalar eru hér á hverju strái, enda hlóðaeldhús og kamínur ráðandi til eldamennsku og upphitunar. Timbursalarnir vikta spýturnar af nákvæmni, enda viðurinn sjálfsagt tiltölulega dýr miðað við kaupmátt hér. Kaup opinberra starfsmanna er á bilinu 25 til 50 evrur á mánuði, ef menn fá þá útborgað. Þess vegna kom á óvart þegar túlkarnir okkar fylktu liði um daginn og kröfðust styttri vinnuviku en 40 klst. Þeir fá um 400 evrur á mánuði. Aukavinnan kallar, t.d. kennsla og þýðingar. En ég er hræddur um að samningsstaða þeirra sé ekki góð, því það bíða amk. 10 túlkar fyrir utan kampinn á hverjum degi, í von um að fá vinnu. Það er mjög eftirsótt að vinna fyrir setuliðið hér og minnir ástandið sumpart á stríðsárin heima. Verklag bretavinnunnar í algleymingi, skóflur, hakar og hjólbörur, ekki of mikið stress á mannskapnum. Þjóðverjar munu vera hátt skrifaðir hér, ekki síst vegna þess að þeir eru taldir hinn hreini aríski kynstofn. Afganir samsama sig með þeim og telja sig Aría lika. T.d. heitir flugfélagið þeirra Ariana til merkis um uppruna theirra. Jæja, það er bara gott að þeir vilja samsama sig Germönum, þó að þeir séu nú flestir ekki germanskir í útliti

Kúgun kvenna er enn ofboðsleg. Þær eru flestar enn með burkha og sitja aftast í bílum. Leigubílar eru oftast stationbílar, þannig er hægt að koma fleira fólki fyrir. Tveir kallar frammi, fjórir aftur í og t.d. fjórar konur og fimm krakkar í farangursrýminu. Það hlýtur að vera bölvað að sitja þar, því vegirnir eru svo holóttir. Um daginn sá ég leigubíl með bílstjóra, einum kalli frammi og tveimur köllum aftur í. Kona í burkha sat í farangursrýminu ásamt pappakassa. Sem sagt staða hundsins á Vesturlöndum.

Í gær var viðbúnaðarstigið á kampinum aukið vegna innrásarinnar í Írak og útgöngubann sett á. Engar skoðunarferðir um Kabul þann daginn. Í staðinn var efldur viðbúnaður vegna hugsanlegrar árásar á kampinn. Loftvarnarflautur voru þeyttar og menn flýttu sér í byrgin með skotheldu vestin sín, hjálmana og gasgrímurnar. Þar var setið í um klukkutíma á meðan æfingin stóð yfir. Annars hafa menn nú ekki miklar áhyggjur hér, kampurinn er er vel varinn og ýmsum meðulum beitt í þeim tilgangi.

Í nótt vaknaði ég við eitthvert gaul og hélt að nú væri stóra stundin runnin upp. En sem betur fer var verið að kalla til bæna, heimamenn hljóta að hafa tekið tæknina í sína þjónustu og keypt sér hátalara

Í dag er frídagur (Maintanance day) af því að á föstudögum er ekki unnið hér í Afganistan.

Í þýsku sveitinni sem ég er í , eru ýmsar venjur hafðar í heiðri. Ein er sú að raða sér upp í hring á stuttum morgunfundi í upphafi vinnudags og takast í hendur. Það bætir liðsandann. Fundir eru stuttir og hnitmiðaðir, til fyrirmyndar og ætti að takast upp heima á Íslandi.

Lt.Col. M.Gislason

::: posted by Salvör at 5:48 e.h.


mars 20, 2003 :::
 
Menntun kvenna í Afganistan
Unicef 19. mars Afghanistan one year later: overshadowed and challenged
Afganistan fréttir frá Unicef

::: posted by Salvör at 3:42 f.h.


mars 18, 2003 :::
 
Þriðjudagur 18 mars 2003.

Gærdagurinn fór að mestu í að hanna rafkerfi í þjónustubyggingu fyrir lögreglustöð sem Þjóðverjarnir eru að endurbyggja.   Ekki er um neina jardvíra að ræða, aðeins tveir vírar, 220 volt.   Aðaltöflu, lýsingu, tengla, greinidósir og rofa hannadi ég svipað og hér heima.   En þegar kom að eldhúsinu varð ég að breyta hugsunarhættinum aðeins.   Afganirnirnir vilja nefnilega vera áfram með sínar gömlu en áreiðanlegu hlóðir.   Jæja, þeir geta þó a.m.k. hitað teið sitt þegar rafmagnið fer af.   Efnislistann tókst mér að útbúa og senda efnispöntun til Þýskalands.   Austurþjóðverji að nafni Schob sér síðan um að handteikna raflögnina svo að hægt sé að setja verkið í útboð meðal verktaka hér í Kabúl.   Mikil áhersla er lögð á að nota innlent vinnuafl og að þróa upp verkþekkingu meðal innfæddra.   Ekki eru pöntuð rör til að draga rafmagnsvíana í og ekki mega lagnirnar vera utanáliggjandi, þá er þeim stolið.   Lausnin er ad fræsa raufar í veggina og múra vírana einfaldlega inni. Í dag stendur til að líta á raflagnir í háskólanum í Kabúl, setja á þar upp nýjan spenni, 100 kVA.

Þegar kemur að því að lýsa því sem fyrir augu ber, kemur í ljós að það vantar íslensk orð yfir bróðurpartinn af því sem er hér á kampinum.   Ástæðan er náttúrulega sú að við höfum engan her og höfum ekki tekið þátt í stríðsbrölti síðan á Sturlungaöld.   Hætt er við að fjálglegar lýsingar á sverði, brandi og exi dugi skammt í dag. Þjóðverjarnir geta hins vegar rakið stríðsbrlt forfeðra sinna margar aldir aftur í tímann. Þeir eru nú bara ágætir í ættfræði og sumir eru með skrá yfir ættir sínar.   Nokkuð mikið er hins vegar af eyðum vegna  heimsstyrjaldanna tveggja.

Faðir eins vinnufélagans var settur í fangabúðir Bandamanna eftir seinna stríð og geymdur þar töluverðan tíma. Mest öll hans ætt þurrkaðist út á þessum tíma. Í sagnaritun eftir stríð tel ég tvímælalaust að Þjóðverjar hafi fengið illilega að kenna á því að þeir töpuðu.

Annað mál. Afganir nýta sauðkindina vel og minna að því leyti nokkuð á Íslendinga fyrr á öldum.   Allir þeirra einkennisbúningar eru úr þessu fína vaðmáli, sem yfirleitt er brúnt á litinn.   Mikið er af kindum og hjarðir af þeim reknar til beitar innan borgarlandsins.   Einnig sjást hér í borginni hænsni, geitur og asnar.   Best að setja sig ekki á háan hest, kannski þarf ekki að fara mikið meira en 100 ár aftur í sögu Íslands til að finna svipaða lífshætti.

Veðrið hefur verið mjög gott, 10-20 stiga hiti, ýmist skyjað eða sól.   Annars er sagt að það séu aðeins tvæ árstíðir hér, vetur og sumar, hitabreytingin gerist svo snögglega.

Glæsilegur snæviþakinn fjallahringurinn togar í mann til uppgöngu, en fjallgöngur eru útilokaðar af öryggisástæðum.   Hásléttan hér er í um 1800 m hæð, en fjöllin í kring teygja sig upp í a.m.k. 4000 m.  

Ég var að velta því fyrir mér hverjum kapteinninn minn með stóra uppsnúna skeggið líktist.   Hann er kapteinn af því að hann kemur úr þýska sjóhernum.   Eitthvað hafa verkefnin verið að minnka þar og þess vegna er hann sendur til Afganistan.   Eins og svo margir þeirra sem hér eru, hefur hann ekki val um það hvert hann er sendur á hverjum tíma.   En áfram með útlitið og skeggið.   Karlinn hefði sómt sér vel sem prússneskur herforingi, eins tilkomumiklir og þeir eru sýndir á myndum, í glæsilegustu einkennisbúningum í sögu Þýskalands   Hann gæti einnig verið skyldur Paul von Hindenburg, síðasta forseta Weimarlýðveldisins, þess sem tilnefndi Hitler ríkiskanslara í janúar 1933. Ég er einmitt með mynd af Hindenburg fyrir framan mig.  

Úr einu í annað:   Um blessaða verslunina hér í herstöðinni má kannski segja eins og ritað var í annálum um verslunina í Hofsós í Skagafirði: „Þar skorti aldrei tóbak né brennivín“   Verðinu er mjög stillt í hóf, 1 karton af sígarettum kostar 5 evrur og kassi með 24 hálfslítradósum af bjór kostar 12 evrur.   Þetta ætti nú ekki illa við suma sem ég þekki á Íslandi, sleppum þó öllum nöfnum.

Ég sit hér og skrifa á 4 hæð aðalstöðva ISAF í Kabul og virði fyrir mér fjallahringinn. Um daginn þegar ég sat hér uppi, hristist allt og skalf. Þjóðverjunum brá nokkuð, en mér leið eins og heima á Íslandi. Jarðskjálfti upp á svona 5-6 stig á Richter, hvað er það á milli vina.

Góð kort eru til af svæðinu sem öryggisgæslusveitirnar sjá um, mælikvardi t.d. 1:5000, 1:25000, 1: 50000 og uppúr. Að sjálfsögðu eru þau hengd upp um alla veggi. Örugglega áhugavart fyrir þá sem koma að landupplýsingamálum og kortagerð.

Það sem menn ræðaa hér núna er ákvörðun Bush um að ráðast inn í Írak, hypji Saddam sig ekki burt innan tilskilins tima.   Ekki er þó farið út í neinar sérstakar ráðstafanir vegna þessa.

Keypti 3 burkha til að styrkja afganskar saumakonur.   Sendi þá heim til Íslands.

Ætla að reyna að finna leið til að senda digitalmyndir, hefði þurft að taka með mér fartölvu.
Lt.Col. M.Gislason

::: posted by Salvör at 6:01 f.h.


mars 17, 2003 :::
 
Sunnudagur 16 mars 2003.

Fór í gær í heimsókn í ráðuneyti byggingarmála hér í Kabúl með tveimur Þjóðverjum og túlk. Tilgangurinn var að kortleggja áherslur afgönsku stjórnarinnar varðandi aðstoð við uppbyggingu. Á móti okkur tók hershöfðingi, borðum skrýddur, en það er stutt leiðin úr hernum upp í ráðuneytin hér. Eins og venjulega var okkur boðið te, Breti nokkur tjáði mér að tedrykkju hefði þeim tekist að kenna Afgönum á nýlendutímanum ællar minningar. Hershöfðinginn hafði mestan áhuga á lögreglustöðvum, enda til lítils að stunda uppbyggingarstarf ef öryggisþátturinn er ekki í lagi. Eftir um klukkutíma var orðið nokkuð heitt í skothelda vestinu og sem betur fer var boðaður annar fundur í næstu viku. Skoðaði í leiðinni afganskt eldhús. Það eru hlóðir, kyntar með timbri. Reyndar virðist langt komið með útrýmingu trjáa hér í Afganistan. Þjóðverjarnir eru með verkefni í trjáplöntun fyrir Afgani hér í Kabúl og virðist það skila árangri.

I gær þegar við sátum á þýska barnum að drekka hveitibjór (weissbier) kom þar inn lítil og nett þýsk kona , ásamt þremur vígalegum þýskum karlmönnum. Þau settu hálfsjálfvirku rifflana sína í byssustativið við innganginn og hengdu húfurnar sínar á hlaupið eins og siður er hér. Þau settust því næst til borðs og einn kallinn fór á barinn. En bíddu við, hvað kom hann með, einn umgang diet kók. Næsti umgangur var diet appelsín. Allir í kring voru hins vegar með almennilegan þýskan bjór. Skýringin kom í ljós þegar litið var á axlarborðana. Konan var hærra sett en kallarnir. Já, misbeiting valds er greinilega ekki bundinn við karlpeninginn. .

Sjálfum finnst mér ekki dónalegt að vera heilsað af Þjóðverjunum með viðeigandi handahreyfingum: Guten Tag Herr OberstLeutnant, Guten Abend Herr OberstLeutnant. Enda tekur það amk. 20 ára þjónustu í þýska hernum að ná þeirri tign. Það er því gaman að spóka sig um hér.

Í morgun förum við að skoða rafstöðina hér í Kabúl. Þar eru 2x22,5 MW díselvélasamstæður frá Alsthom, en raforkuþörfin í þessari milljónaborg er áætluð 60 MW. Stöðin var ekki starfrækt síðustu 15 árin, en nú á að koma henni í gagnið sem toppstöð. Mest orkan fæst frá vatnsaflsvirkjunum, en þær skila hins vegar litlu á sumrin þegar þurrt er. Það sem byrja þarf á er að bæta öryggismál, það er að víggirða stöðina svo að terroristar komist ekki inn. Það er gert með sandpokum (5-10 rúmmetrar hver), steypu og gaddavír. Það er líka forsenda fyrir því að Alsthom menn komi inn á svæðið, enda tekur verkefnið amk. 1 ár.

Stoppudum á leiðinni heim á einum af ótal götumörkuðum. Þar voru pottasmiðir að berja eir í gríð og erg, öll ílát eru handunnin hér.

::: posted by Salvör at 6:04 f.h.


mars 14, 2003 :::
 
Fysta bréfið
Nú er ég kominn í herstöðina í Kabul.   Þurfti að vera 1 sólarhring í herstöðinni Termez, Uzbekistan vegna vélarbilunar. Þetta er stöð frá Sovettímanum, rétt norðan við Afganistan, en er nú notuð af Þjóðverjum vegna verkefnisins í Kabul.  Flugið frá Köln til Termez var ekki reyklaust og hermennirnir hér reykja mjög mikið.   Í Termez var gist í tjöldum    Flugið frá Termez til Kabúl var með flutningavél frá þýska hernum.   Þar var öllu hlaðið inn að aftan, bæði fólki og farangri.   Ekki voru venjuleg sæti þar, heldur var fólki raðað eftir vélinni endilangri.   Aðeins er flogið þegar skyggni er gott þannig að aðrar flugvélar sjáist, því búið er að stúta öllu  sem heitir flugstjórnarkerfi.  

Flugið suður yfir Hindu-Kush fjallgarðinn var hrikalegt.   Órói var í lofti og vélin valt sitt á hvað.   Í Kabúl tók á móti okkur sundurskotin flugstöð, víggirt með sandpokum og gaddavír.   Alls konar hertól voru þar í kring, t.d. skriðdrekar og stórir trukkar með vélbyssum.   Allir með vélbyssur og fleiri vopn.   Í rútunni yfir á kampinn þurftu allir að vera í skotheldum vestum.   Þau eru þung, sjálfsagt 15-20 kg.   Á kampinum eru um nokkur þúsund manna lið frá mörgum þjóðum, flest Þjóðverjar og Hollendingar.   Hver þjóð hefur sinn einkennisbúning (í mismunandi grænum felulitum) nema ég.   Ég er hins vegar munstraður inn í þýska herinn, er kominn með allt sem þarf, nokkur sett af alklæðnaði, yfirhöfnum og skóm. Sömuleiðis þýsk vopn og skotfæri.   Ekki má gleyma skothelda vestinu.   Fer í þjálfun á næstu dögum.   Skrýtið að sjá allan þennan vopnaburð.   Menn setja á sig vélbyssuna og skammbyssuna þegar þeir fara á fætur á morgnana og taka þetta ekki af sér fyrr en á kvöldin.   Þegar farið er í mötuneytið, er vélbyssan sett á gólfið eða hengd á stólbakið.   Í bíósalnum eru yfirleitt sýndar stríðsmyndir.   Á kampinum eru a.m.k. 5 barir og eru þeir mikið sóttir á kvöldin.   Liðið hérna er fremur ungt, a.m.k. þeir óbreyttu, yfirleitt glæsilegt fólk í blóma lífsins og vel á sig komið líkamlega.   Um andlegu hliðina veit ég ekki svo mikið ennþá.   Skrýtið að sjá þungvopnadar stúlkur.   Vissara að fara varlega þar.   Afganir á kampinum eru einungis karlmenn.   Afganskar konur fá ekki að vera þar, þær sáust hinsvegar í „burkha“ á leiðinni frá flugvellinum, treysta  greinilega ekki stjórnarfarinu of mikið.   Krakkarnir þurfa hins vegar ekki að hylja sig.

Þó að Kabul sé ekki falleg borg, er fjallahringurinn stórglæsilegur, snævi þaktir tindar allt um kring.

Héðan sést aðeins leir og grjót, göturnar ýmist drulla eða ryk.

Á morgun hefst fyrsti formlegi vinnudagurinn, dagurinn í dag fer í flakk um herstöðina.

Maturinn er yfirdrifinn, en ekki fyrir hvern sem er. Gistiaðstaðan er góð.   Herbergisfelaginn er adeins einn, enn sem komid er, kapteinn i þýska hernum. 

::: posted by Salvör at 9:43 f.h.


mars 10, 2003 :::
 


::: posted by Salvör at 4:19 e.h.




Powered by Blogger